Inngangur

Á undanförnum árum hefur orðið mikil þróun í nágrannalöndunum í aðferðafræði við skipulagsgerð vegna tilkomu stafrænnar tækni. Þróunin snertir flesta þætti skipulagsgerðar, allt frá mótun til miðlunar. Þar sem sýnt þótti að samsvarandi þróun hefði ekki orðið í sama mæli hérlendis ákvað umhverfisráðuneytið í samstarfi við Skipulagsstofnun og Landmælingar Íslands að gera úttekt á því fyrirkomulagi sem mótast hefur í nágrannalöndunum. Markmiðið var að ná yfirsýn yfir þá þætti sem máli skipta í þessu sambandi og að kanna hvað læra mætti af nágrönnunum, með yfirfærslu í huga. Ákveðið var að skoða hvernig farið hefði verið að í Danmörku og Noregi þvi skipulag í þessum löndum er að flestu leyti líkt því sem hér er og því helst von um að þar megi finna lausnir sem henta íslenskri stjórnsýslu. 
Ráðgjafarfyrirtækið Alta annaðist þessa úttekt í samstarfi við Skipulagsstofnun og Landmælingar Íslands og undir umsjón ráðuneytisins. Að langmestu leyti var leitað fanga á veraldarvefnum enda er viðfangsefnið þess háttar að allar helstu upplýsingar um það eru opinberar og þeim miðlað á vef stofnana og hagsmunaaðila. Vísað er í þessar heimildir í textanum.

Almennt um stafrænt skipulag

Hér er viðfangsefnið, stafrænt skipulag, skilgreint sem skipulagsáætlun sem eftirfarandi gildir um:
  1. Það er að öllu leyti unnið á tölvutæku formi og miðlanlegt, í heild eða hlutum, á internetinu.
  2. Það er unnið á landupplýsingaformi, þannig að öll staðbundin ákvæði eru sett fram sem fitjur með margvíslegar eigindir, þar sem öll efnisatriði ákvæðanna koma fram.
Því má halda fram að skipulag sem uppfyllir aðeins fyrra skilyrðið, sé stafrænt skipulag en hér er gengið út frá báðum skilyrðunum enda snýst þróunin ekki síst um þau tækifæri sem felast í því seinna.
Þær skipulagsáætlanir sem unnar hafa verið á Íslandi undanfarin ár uppfylla fyrra skilyrðið. Þá er greinargerð unnin í ritvinnsluforriti og uppdráttur í teikniforriti, í samræmi við þann framsetningarmáta sem kveðið er á um í skipulagsreglugerð. Miðlun fer venjulega fram með þeim hætti að greinargerð og uppdrættir eru vistaðir á PDF formi og aðgangur veittur að þeim á vefnum, venjulega á vef sveitarfélagsins sem í hlut á. Nokkuð er um að mörk skipulags séu hnituð og sýnd á vefsjá til þess að finna megi gildandi skipulag á hverjum stað og síðan sækja greinargerð eða uppdrátt í heild á PDF formi. Skipulagsstofnun og nokkur sveitarfélög veita aðgang að skipulagsáætlunum með þessum hætti. Einskis er krafist um fyrirkomulag þeirra gagna sem uppdrátturinn byggir á, svo lengi sem birtingarmynd þeirra er í samræmi við kröfur reglugerðarinnar.

Þegar seinna skilyrðið er uppfyllt opnast ýmis tækifæri, einkum ef fitjunum er safnað í sameiginlegan gagnagrunn á landsvísu:
  • Sýna má landnotkun á korti fyrir landið allt eða hluta þess án tillits til sveitarfélagamarka.
  • Finna má svæði með tiltekinni landnotkun hvar sem er.
  • Fletta má upp skilmálum og landnotkunarmarkmiðum á mismunandi skipulagsstigum fyrir tiltekið heimilisfang.
  • Hægt er að skoða skipulagsupplýsingar í samhengi við aðrar landupplýsingar, eftir þörfum í hverju tilfelli.
  • Samræmi eykst í mótun og framsetningu skipulagsupplýsinga og skilmála.
Hafa ber í huga að skipulagsupplýsingar eru að stórum hluta landupplýsingar og eðlilegt að farið sé með þær sem slíkar. Þær eru meðal þeirra landupplýsinga sem hafa áhrif á réttindi og skyldur borgaranna. Það þarf því að eyða öllum vafa um hvaða upplýsingar eru í gildi, hvað réttaráhrif varðar, og þær þurfa að vera í innbyrðis samræmi við aðrar slíkar upplýsingar, einkum um mörk landeigna og stjórnsýslumörk.

Jafnframt færslu staðbundinna ákvæða yfir á landupplýsingaform er þróun í þá átt að mótun stefnu og almennra atriða í greinargerð fari fram á vefformi, þar sem unnt er að gera tillögu í mótun sýnilega, til þess að fá viðbrögð samfélagsins og umsagnaraðila. Endanlegri útgáfu er þá einnig miðlað á vefformi, frekar en sem PDF skjali. Skýringarmynd: Sýndir eru tveir flákar sem gætu verið landnotkunarreitir í aðalskipulagi ásamt eigindatöflu fyrir þá með vísunum í aðrar töflur.