Danmörk

Högun og flæði upplýsinga - Danmörk

Almennur landupplýsingagrunnur (A)

Stafrænn kortagrunnurFOT (FællesOffentligT geografisk administrationsgrundlag) er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og því er ætlað að tryggja að þarfir opinberra aðila fyrir landupplýsingar séu uppfylltar á hagkvæman og staðlaðan hátt með samstilltri stjórnsýslu. Þátttakendur í samstarfinu eru sveitarfélög og Kort & Matrikelstyrelsen (KMS) fyrir hönd ríkisins en gögnin byggja m.a. á eldri kortagrunni KMS sem nefnist Kort10. Samstarfið nær til skilgreiningar, söfnunar, viðhalds og miðlunar landupplýsinga sem stjórnsýslan þarfnast og nær til grunnkerfa á vegum sveitarfélaganna, svo sem vega og veitna. Framan af var um að ræða marga svæðisbundna samstarfssamninga sveitarfélaga við KMS sem falla undir sameiginlegt heildarskipulag sem nefnt er FOTdanmark. Á vegum hvers samstarfssamnings voru boðin út innkaup á landupplýsingum, s.s. uppréttum og hnitsettum loftmyndum í samræmi við þær kröfur sem FOTdanmark skilgreinir. Þar sem gögnin eru nú orðin að mestu landsþekjandi hefur verið gerður nýr, samræmdur samningur við öll sveitarfélögin um aðgang að gögnunum. Talið er eðlilegt að landupplýsingum til þessara þarfa sé til haga haldið af opinberum aðila sem tryggir viðhald þeirra og áreiðanleika. Lögð er áhersla á að gögnin nái yfir allt landið. Upplýsingarnar eru einnig aðgengilegar einkaaðilum og gert er ráð fyrir því að nýsköpunartækifæri felist í aðgangi einkaaðila að slíkum gögnum.

FOTdanmark rekur gagnagrunninn FOT2007, þar sem sameiginlegar landupplýsingar eru vistaðar, þeim viðhaldið og dreift. Gagnagrunnurinn býður upp á eftirfarandi þjónustu:

    • Vistun gagna eftir FOT-gagnamódelinu

    • Innlögn og leiðréttingu gagna

    • Niðurhal gagna (GML form)

    • Myndkorta- og fitjuþjónusta (WMS/WMF)

    • Vefsjá þar sem breyta má gögnum

Að auki er á vegum FOTdanmark hugbúnaður til að laga eldri landupplýsingar að gagnamódelinu.

Nýjasta útgáfa gagnaskilgreiningarinnar, FOT4, er 395 bls með viðaukum.

Í skilgreiningunni er m.a. kveðið á um:

    • Gerðir og almenna eiginleika fitja

    • Geómetríu- og grannfræðireglur fyrir fitjur

    • Kröfur um nákvæmni, t.d. í hnitum, skráningu, samræmi við grannfræðireglur og ítarleika.

    • Innihald, þ.e. hvers kyns upplýsingar skuli vistaðar. Gert er ráð fyrir eftirfarandi meginflokkum:

      • Byggingar

      • Byggð svæði

      • Samgöngur (t.d. vegmiðjur og kantar)

      • Tæknileg grunnkerfi (t.d. fjarskiptamöstur, kirkjugarðar, vindmyllur og niðurföll)

      • Náttúra (t.d. skógar, námur, votlendi)

      • Vatnafar (t.d. vötn og lækir, skurðir, hafnir og strönd)

      • Stjórnsýslumörk (t.d. sveitarfélagamörk, friðuð svæði, staðanöfn)

      • Loftmyndir

Skilgreind eru eigindi fyrir hverja tegund.

Sveitarfélögum sem eiga aðild að samstarfinu hefur verið að fjölga og nú standa sex sveitarfélög utan þess, þ.á.m. Kaupmannahöfn. Í október 2010 hafði um helmingur Danmerkur verið kortlagður skv. stöðlum FOT.

Landeignagrunnur

Kort- og Matrikelstyrelsen heldur til haga upplýsingum um landeignir og að nokkru leyti mörk friðaðara svæða, auk stjórnsýslumarka, svo sem sóknarmörk og sveitarfélagamörk . Ástand og nákvæmni gagnanna er með ýmsum hætti því í sumum tilfellum hafa þau verið hnituð inn af gömlum uppdráttum eða byggja á misjafnlega skýrum stoðgögnum. Nákvæmni gagnanna er tiltekin með því að setja þau í þrjá nákvæmnisflokka.

Ýmsar landupplýsingar

Við skipulagsgerð í Danmörku eru notaðar aðrar landupplýsingar frá t.d.:

    • Umhverfisráðuneyti (Miljøministeriet): Landsskipulagsupplýsingar, strandsvæði, vindmyllur, gögn þróunarráðs höfuðborgarsvæðisins (HUR).

    • Vefgátt um umhverfismál (Danmarks Miljøportal): Náttúrufar, vatnafar ofl.

    • Jarðfræðistofnunin (GEUS): Jarðfræði, borholur ofl.

Söfnun og viðhald grunnupplýsinga (B)

Þeir aðilar sem safna gögnum í FOT gagnagrunninn eru sjálfir ábyrgir fyrir því að koma þeim á GML form og senda inn með einföldu upphali á vef kerfisins. Við móttöku er gengið úr skugga um að fitjur og eigindi séu skilgreind á réttan hátt en ekki er reynt að kanna hvort grannfræðireglur um geometríska lögun og samhengi eru virtar.

Landeignaupplýsingar

Löggiltir landmælingamenn (landinspektører) mæla og skjalfesta mörg landeigna og færa upplýsingar þar um með stafrænum hætti í gagnagrunna KMS.

Miðlun grunngagna fyrir skipulagsgerð (C)

KMS rekur sérstakan gagnagrunn fyrir lýsigögn á www.geodata-info.dk. Þar er miðlað, án endurgjalds, lýsigögnum fyrir þær landupplýsingar sem falla undir INSPIRE tilskipunina.

Með sameiginlegum samningi sveitarfélaga við KMS fá þau öll aðgang að öllum gögnunum í FOT kerfinu og að landeignagögnum með ýmsum hætti, t.d. sem GML niðurhal, sem myndkort á WFS formi eða fitjuþjónusta á WFS formi. Nýtingarréttur gagnanna er bundinn við verkefni sveitarfélaga og nær þannig líka til þeirra sem þjónusta sveitarfélögin í þessum verkefnum.

Mótun stafræns skipulags (D)

Í dönsku skipulagslögunum er sveitarstjórnum falið að gera aðalskipulag (kommunplan, greinar 11 og 12) og umhverfisráðherra að gera landsskipulag (landsplan, 2. grein). Gert er ráð fyrir því að skipulagsáætlanir séu lagðar inn í sameiginlegan stafrænan skipulagsgagnagrunn (sjá greinar 31a og 54b) og umhverfisráðherra falið að reka gagnagrunninn og setja reglur um útfærslu hans og innihald. Lögin eru afgerandi og ítarleg hvað þetta varðar og bjóða ekki upp á undanþágur.

By- og Landskabsstyrelsen (BLST) er sú stofnun sem hefur með skipulag að gera í danska stjórnkefinu en er hvað meginviðfangsefni varðar hliðstæð Umhverfisstofnun. Stofnunin hefur leiðbeiningarhlutverk gagnvart sveitarfélögum sem hún sinnir með margvíslegum hætti, t.d. með útgáfu ítarlegra leiðbeininga um gerð aðalskipulags.

Dönsku aðalskipulagi er skipt í þrjá hluta:

    1. Heildarsamhengi (hovedstruktur).

    2. Leiðsögn um landnotkun (retningslinjer for arealanvendelse).

    3. Aðalskipulagsrammar (rammer for lokalplanlæningen).

Heildarsamhengið nær til alls lands sveitarfélagsins og þar kemur fram hver niðurstaða sveitarstjórnar er varðandi landnotkun í grófum dráttum og málamiðlun milli ólíkra hagsmuna. Tekið skal á megindráttum í búsetu, atvinnulífi, náttúruvernd, grunnkerfum ofl. Niðurstöður eru settar fram á einu eða fleiri kortum eftir þvi sem við á.

Í leiðsögn um landnotkun skal setja fram stefnu sveitarstjórnar í 19 tilgreindum málaflokkum og ber sveitarstjórn að haga stjórnsýslu sinni í samræmi við þá stefnu sem þar kemur fram. Þegar stefnan gildir um tiltekin afmörkuð svæði er skylt að sýna þau á uppdrætti.

Skilgreina skal ramma (kommuneplanrammer) þar sem með landfræðilegri afmörkun og skilmálum í texta eru afmarkaðar heimildir fyrir deiliskipulagningu, t.d. varðandi gerð og umfang byggðar og landnotkun. Deiliskipulag má því aðeins gera að fyrir liggi slíkur rammi. Gert er ráð fyrir því að rammar nái yfir allt sveitarfélagið en það er þó ekki skylda. Í gagnastaðli skipulagsupplýsinga (PlanDK2) eru skilgreindir landnotkunarflokkar sem heimfæra á rammana upp á (sjá nánar í umfjöllun um skipulagsgagnagrunn).

Auk hinnar þríþættu skipulagsáætlunar sem að ofan greinir skal útbúa greinargerð um forsendur skipulagsins (redegørelse), sem inniheldur m.a. stefnu sveitarstjórnar, samræmi við landsskipulag og aðrar áætlanir, upplýsingar um stöðu í búsetu- og atvinnumálum og fleira.

Ríkisvaldið ber ábyrgð á landsskipulagi og skipulagningu strandsvæða, þ.e. 3 km breiðs beltis meðfram allri strönd landsins. Landshlutastjórnir (regionsråd) bera ábyrgð á mótun skipulags fyrir landshlutana 5 (regioner). PlanDK2 staðallinn gerir ekki ráð fyrir þessum skipulagsstigum.

Skipulagsgagnagrunnur (E)

Umhverfisráðuneyti Danmerkur rekur upplýsingakerfi, PlansystemDK, sem hýsir skipulagsgögn. Markmið kerfisins er að auðvelda almenningi aðgang að skipulagsgögnum og gera sveitarfélögum kleift að senda inn skipulagsgögn á stafrænu formi. Í skipulagslögum Danmerkur er að finna ákvæði sem skylda ríkið til að reka kerfið og sveitarfélögin til að leggja inn í það gögn. Þar er jafnframt kveðið á um að lesaðgangur að kerfinu skuli vera öllum opinn, án endurgjalds.

Til þess að ná þessum markmiðum hefur PlansystemDK skipulagt staðlaða gagnahögun og sett upp vél- og hugbúnað. Deiliskipulagsáætlanir fá fullnaðarstaðfestingu með innskráningu í kerfið. Hin staðalaða gagnahögun er nefnd PlanDK og er nú í útgáfu 2, þ.e. PlanDK2 og sú næsta (PlanDK3) er í undirbúningi.

Gagnahögunin PlanDK2

Í gagnastaðlinum PlanDK2 er gert ráð fyrir skipulagsupplýsingum sveitarfélaganna, þ.e. aðalskipulagi og deiliskipulagi en ekki efri skipulagsstigum, þ.e. landsskipulagi og svæðisskipulagi (regional planering). Staðlinum er hagað þannig að upplýsingar séu skráðar á einum stað en þær tengist öðrum gögnum eftir þörfum. Þannig minnkar viðhald og áreiðanleiki eykst.

Skilgreindar eru 9 tegundir skipulagsgagna sem taldar eru upp hér fyrir neðan.

    • Aðalskipulag (kommuneplan). Hér er m.a. skráð vefvísun á PDF skrá, dagsetningar kynningar og gildistöku, sveitarfélagsnúmer o.fl.

    • Aðalskipulagslýsing (kommuneplanstrategi). Skráðar upplýsingar eru að mestu þær sömu og fyrir aðalskipulag.

    • Aðalskipulagsrammi (kommuneplanramme). Hér er m.a. skráð hvaða skipulagi ramminn tilheyrir, landnotkunarflokkur, skilmálatexti, tölur um hæð og umfang byggðar, fitjuhnit afmörkunar, o.fl.

    • Aðalskipulagsbreyting (kommuneplantillæg). Hér er skráð m.a. hvað skipulagi breytingin tilheyrir, vísun á PDF skjal og gildistökutími.

    • Deiliskipulag (lokalplan). Hér er skráð m.a. númer aðalskipulags eða aðalskipulagsramma sem deiliskipulagið tilheyrir, landnotkun, tölur um hæð og umfang byggðar, fitjuhnit afmörkunar o.fl.

    • Deiliskipulagshluti (lokalplan-delområde). Þessi flokkur eykur sveigjanleika í skilgreiningu landnotkunar á deiliskipulagsstigi. Almennt þekja deiliskipulagshlutar til samans jafnstórt svæði og deiliskipulagið. Hér eru skráðar að mestu sömu upplýsingar og fyrir deiliskipulag ásamt vísun í deiliskipulagið sem hlutinn tilheyrir og fitjuhnit afmörkunar.

    • Svæðisafmörkun (zonekort), þ.e. þéttbýlissvæði, dreifbýlissvæði og sumarhúsasvæði. Hér er m.a. skráð tegund svæðis og fitjuhnit afmörkunar.

    • Annað skipulag (anden kommunal plan), einkum eldri skipulagsáætlaninr og ákvarðanir sem enn eru í gildi. Hér er m.a. skráð hvers kyns skjal er um að ræða, vísun á skjalið sjálft og fitjuhnit afmörkunar.

    • Stjórnsýslumörk (administrative skel). Hér eru skráð m.a. fitjuhnit.

Í öllum ofangreindum flokkum er vísað til sveitarfélagsins með númeri og sérstök tafla varðveitir á einum stað upplýsingar um sveitarfélagið sjálft. Yfirleitt eru líka skráðar upplýsingar um ýmsar dagsetningar t.d. varðandi gildistöku, niðurfellingu, innskráningu og uppfærslu, eftir því sem við á. Allar þessar upplýsingar eru skráðar sem eigindi og eru sumar valkvæðar eftir atvikum en aðrar ekki.

Unnt er að breyta fitjuhnitum annars vegar og öðrum eigindum hins vegar á sama tíma vegna þess að oft er ábyrgð á þessu tvennu hjá ólíkum aðilum.

Grannfræðireglur

Í PlanDK2 felst líka skilgreining á grannfræðireglum sem stýra því hvernig svæðisafmörkun er skráð og hnitsett. Dæmi um helstu slíkar reglur eru sem hér segir:

    • Mikilvægt er að afmörkun deiliskipulagsreita fylgi lóðaafmörkun í landeignaskrá til þess að ekki komi upp vafi um það til hvaða lóða tiltekin skipulagsákvæði ná.

    • Mörk aðalskipulagsramma eiga að falla saman án skörunar. Einu tilfellin þar sem skörun er leyfð er þegar sérstök þemaafmörkun, t.d. vegna verndunar, nær yfir fleiri en einn ramma en þá jafnan með mjög sértækum ákvæðum. Slíkir rammar eru auðkenndir í eigindum.

    • Afmörkun deiliskipulagssvæða á að falla saman við afmörkun aðalskipulagsramma eftir því sem við á og hvert deiliskipulag á að vera innan eins aðalskipulagsramma.

    • Þjóðvegir og helgunarsvæði þeirra geta flækt málið svolitið og nokkuð misjafnt hvort farið er eftir miðlínu eða helgunarsvæðismörkum.

    • Mælt er með því að mörk aðalskipulagsramma fylgi markalínum landeignaskrár, annars stjórnsýslumörkum og þar á eftir náttúrulegum staðháttum sem fram koma á uppréttri loftmynd.

Þess er ekki krafist að aðalskipulagsrammar þekji allt land sveitarfélags en það er talið æskilegt. Þá er oft um að ræða "afgangsramma" á óbyggðum svæðum.

Gæta þarf þess að uppfæra svæðaafmörkun í skipulagi þegar breytingar verða á landfræðilegum mörkum í landeignagrunni.

Tilgreining landnotkunar

Landnotkun er tilgreind með þrennum hætti:

    1. Almenn (generel), alls 10 landnotkunarflokkar, áþekkir þeim sem skilgreindir eru í íslensku skipulagsreglugerðinni.

    2. Sérgreind (specifik), 51 undirflokkur sem tilgreinir landnotkun nánar.

    3. Sértæk (Konkret), 85 flokkar mannvirkja og aðstöðu sem skipulagið gerir ráð fyrir.

Hver þessara flokka hefur sitt auðkennisnúmer og þau skráð sem eigindir fyrir aðalaskipulagsramma, deiliskipulag og deiliskipulagshluta. Skylt er að tilgreina almenna landnotkun fyrir aðalskipulagsramma en valfrjálst að tilgreina sérgreinda og sértæka landnotkun. Fyrir deiliskipulag og deiliskipulagshluta er skylt að tilgreina bæði almenna og sérgreinda landnotkun en tilgreining sértækrar landnotkunar er valfrjáls. Í staðlinum er tillaga um litaval fyrir almenna landnotkunarflokka til notkunar á uppdráttum.

Almennir landnotkunarflokkar í danska staðlinum eru þessir:

    • Íbúðarsvæði. (Boligområde) Hrein íbúðarsvæði þar sem gert er ráð fyrir takmarkaðri verslun og þjónustu fyrir nærumhverfið. Íbúðarhlutinn sé minnst 80%.

    • Blanda íbúða og atvinnustarfsemi. (Blandet bolig og erhverv) Hlutfall íbúða sé á bilinu 20-80% en afgangurinn fyrir atvinnustarfsemi.

    • Atvinnusvæði. (Erhvervsområde) Hrein atvinnusvæði með takmarkaðri verslun og þjónustu fyrir nærumhverfið. Atvinnustarfsemi sé minnst 80%.

    • Verslanasvæði. (Centerområde) Notað fyrir stærri verslunarkjarna.

    • Frístundasvæði. (Rekreativt område) Aðstaða fyrir frístundir og ferðamennsku, auk útivistarsvæða innan og utan þéttbýlis.

    • Sumarhúsasvæði. (Sommerhusområde)

    • Opinber þjónusta. (Område til offentlige formål) Svæði fyrir t.d. skóla, heilsugæslu, menningarstofnanir, stjórnsýslu ofl.

    • Tæknileg mannvirki og kerfi. (Tekniske anlæg) Nær yfir t.d. samgöngu- og samskiptakerfi, veitur, hreinsistöðvar o.þ.h.

    • Dreifbýlissvæði. (Landområde) Svæði sem ekki falla í ofangreinda flokka, t.d. landbúnaðarsvæði, stærri óbyggð svæði, hernaðarsvæði og námasvæði.

    • Önnur svæði. (Andet) Þessi flokkur er "ruslakista" sem nota má þegar ekkert annað á við. Flokkinn ber að nota sparlega.

Áform um PlanDK3

Gert er ráð fyrir því að í næstu útgáfu staðalsins, PlanDK3, verði stöðluð gagnasnið fyrir lögskipuð málefni aðalskipulags skv. grein 11a í dönsku skipulagslögunum. Sá staðall verður samræmdur gagnasniðum hjá Danmarks Miljøportal (DMP) og INSPIRE.

Söfnun og viðhald skipulagsupplýsinga í skipulagsgagnagrunni (F)

Skipulagsyfirvöldin bera ábyrgð á því að leggja inn í gagnagrunninn þær skipulagsupplýsingar sem undir þau heyra. Sveitarfélögin eiga því að skila inn upplýsingum sem varða aðal- og deiliskipulag en ríkið skilar inn upplýsingum um ákvæði sem gilda á strandsvæðum.

Miðlun skipulagsupplýsinga úr skipulagsgagnagrunni (G)

Sveitarfélögin senda inn skipulagsgögn og eru ábyrg fyrir gæðum þeirra. Innan þessa kerfis fá fagstofnanir aðgang að skipulagstillögum til umsagnar.

Innan kerfisins fæst aðgangur að:

    • Skipulagslýsingum

    • Breytingum á skipulagslýsingum

    • Skipulagstillögum

    • Samþykktum skipulagsáætlunum

    • Skipulagsbreytingum

    • Mörkum þéttbýlis- og sumarhúsasvæða (zonekort)

Upplýsingakerfið býður m.a. upp á:

    • Lýsigögn um skipulagsáætlanirnar

    • Að skoða skipulagsskjöl og sækja (PDF)

    • Landfræðilegt umfang, sýnt á korti.

    • Leitarmöguleikar eftir skipulagsáætlunum, heimilisföngum, lóðum ofl.

    • Leit að þeim skjölum sem varða tiltekna fasteign, lóð eða svæði.

    • Hægt er að fá upplýsingar bæði á teiknuðu korti (WMS) og sem fitjuþjónustu (WFS).

Gögnin mynda þá landsþekjandi samfellu og hægt að skoða skipulag aðlægra sveitarfélaga í einu lagi.

Eldri skipulög og aðgengi að þeim (H)

Sveitarfélögum er skylt (sbr. Cirkulære nr. 68, 2006, 3. kafli) að leggja inn í skipulagsgagnagrunn upplýsingar í samræmi við gagnastaðal um skipulag sem í gildi er við gildistöku nýrra skipulagslaga, 8. júní 2006.

Yfirlitsmynd: