Högun og flæði upplýsinga

Högun og flæði upplýsinga

Það að geta miðlað upplýsingum um gildandi skipulag með skilvirkum hætti á netinu til að tryggja að almenningur og stjórnvöld hafi sem bestar upplýsingar, krefst samspils margra þátta sem hver um sig er á ábyrgð mismunandi aðila. Það þarf því að samræma vinnubrögð margra stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja til þess að upplýsingarnar flæði hindranalaust og þeim sé skipulega haldið til haga.

Hér fyrir neðan er skýringarmynd sem sýnir helstu þætti þessa kerfis og í texta er gefin almenn lýsing á hverjum þætti fyrir sig. Síðan verður skoðað hvernig hverjum þætti er hagað í Danmörku, Noregi og á Íslandi.

Almennur landupplýsingagrunnur (A)

Þegar skipulag er mótað þarf sá hluti stefnu og skilmála sem hefur landfræðilega afmörkun að byggjast á grunngögnum sem eru einkum af þrennu tagi:

    1. Stafrænn kortagrunnur, þar sem finna má upplýsingar um landæð, mannvirki, tæknileg grunnkerfi, vatnafar, loftmyndir ofl. sem nýtist í margvíslegu samhengi, m.a. við skipulag.

    2. Landeignaskrá, þar sem dregin eru mörk eignarlanda og lóða, stjórnsýslumörk og aðrar þær línur sem skilgreina réttindi og skyldur lögaðila.

    3. Ýmsar aðrar landupplýsingar, svo sem um auðlindir, náttúruvá, vistkerfi og fleira.

Söfnun og viðhald grunnupplýsinga (B)

Þótt ýmsar þær upplýsingar sem fólgnar eru í upplýsingagrunnum sé til haga haldið af ríkinu í samræmi við lagafyrirmæli er uppruni þeirra gjarnan hjá öðrum aðilum, eins og t.d. sveitarfélögum og einkaaðilum. Um innlögn slíkra gagna og viðhald þeirra þarf þá að gera sérstaka samninga eða setja um hana lagaskyldu.

Miðlun grunngagna fyrir skipulagsgerð (C)

Þeim landupplýsingum sem hér um ræðir (sbr A og B) er yfirlett safnað til þess að þeim megi miðla til þeirra sem á þurfa að halda í margvíslegum verkefnum og eru þá til þess fallin að tryggja samræmi hvað þetta varðar, þótt viðfangsefnin séu að öðru leyti ólík. Miðlunin er einkum með tvennum hætti:

    • Myndmiðlun, þar sem kort er teiknað upp sem mynd, venjulega á vefþjóni og sent til vefskoðara notandans í vefsjá. Þegar gögnum er miðlað á þennan hátt eru teknar úr gagnagrunni annars vegar upplýsingar um fitjur innan þess svæðis sem notandinn kallar eftir og upplýsingar um myndræna framsetningu þeirra eftir því sem við á og úr þessum upplýsingum gerð mynd sem send er til notandans. Dæmi um slíkt gæti verið að annars vegar séu sótt hnit veglínu og hins vegar upplýsingar um lit og línubreidd eftir gerð vegar og útkoman látin birtast á myndinni ásamt með öðrum kortaupplýsingum sem við á. Algengt er að miðlun af þessu tagi sé eftir WMS staðli (Web Map Service) frá Open Geospatial Consortium. Myndin er síðan send á algengu myndrastaformi, t.d. jpeg eða png. Yfirleitt er aðgengi að landupplýsingum á myndformi tiltölulega opið og ódýrt eða ókeypis því engin frumgögn eru send.

    • Fitjumiðlun, þar sem þær fitjur sem notandinn óskar eftir eru sendar frá fitjuþjóni til landupplýsingahugbúnaðar hjá notandanum. Fitjurnar, þ.e. punktar, línur eða marghyrningar, eru sendar sem hnit og með eigindum sem lýsa hverju því sem þörf er á að lýsa. Þegar ósk um fitjur er send frá landupplýsingahugbúnaðinum til fitjuþjónsins er það jafnan gert með leitarskilyrðum sem stjórna því hvaða fitjur eru sendar til baka. Algengt er að miðlun af þessu tagi sé eftir WFS staðli (Web Feature Service) frá Open Geospatial Consortium. Fitjurnar eru sendar með því að fitjumiðlarinn útbýr ítarlega lýsingu á þeim á heppilegu formi, t.d. GML, og sendir þær yfir vefinn á svipaðan hátt og vefsíður eru sendar. Algengt er að skorður séu settar við aðgengi að fitjum og að gjalds sé krafist, þar sem þar er oftast um frumgögn að ræða.

Mótun stafræns skipulags (D)

Í þeim löndum sem þessi athugun nær til, eftir gildistöku nýrra skipulagslaga á Íslandi, er skipulag á fjórum stigum:

    1. Landsskipulag, sem ríkið mótar í samráði við sveitarfélög og inniheldur að mestu stefnu í máli og myndum en kann einnig að fela í sér ákvæði sem takmarkast við hnitsett svæði og er því eðlilegt að meðhöndla sem landupplýsingar.

    2. Svæðisskipulag, þar sem tvö eða fleiri sveitarfélög koma sér saman um tiltekin sameiginleg mál. Svæðisskipulag kann að fela í sér ákvæði sem takmarkast við hnitsett svæði og er því eðlilegt að meðhöndla sem landupplýsingar.

    3. Aðalskipulag, sem hvert sveitarfélag ber ábyrgð á innan sinna marka og felur í sér stefnu um landnotkun á öllu svæðinu. Það hlýtur þvi að fela í sér margvíslegar landupplýsingar.

    4. Deiliskipulag sem sett er í samræmi við landnotkunarákvæði aðalskipulags og er hugsanlega mótað af landeigendum eða uppbyggingaraðilum en er ávallt á ábyrgð sveitarfélagsins.

Skipulagsdeildir sveitarfélaga, undir pólitískri leiðsögn kjörinna fulltrúa, annast gerð svæðis- og aðalskipulags, oft með aðstoð ráðgjafa.

Skipulagsgagnagrunnur (E)

Í skipulagsgagnagrunni eru vistaðar upplýsingar um gildandi skipulag og eftir atvikum eldra skipulag og skipulagsbreytingar. Högun upplýsinganna í skipulagsgagnagrunninum ræður úrslitum um það hvaða möguleikar eru í boði varðandi miðlun og notkun upplýsinganna. Einfaldasta útfærsla væri að geyma heila uppdrætti og greinargerðir á PDF formi ásamt einni fitju fyrir hvert skipulag sem sýnir mörk þess. Flóknara, en um leið notadrýgra, er t.d. að vista hvern landnotkunarreit fyrir sig sem sjálfstæða fitju ásamt með eigindum sem lýsa reitnum og ákvæðum sem innan hans gilda. Með því fyrirkomulagi verður leit mun markvissari og íbúi getur t.d. séð á skilvirkan hátt öll skipulagsákvæði sem eiga við hans lóð. Yfirvöld geta líka tekið saman staðtölur og yfirlit um landnotkun af mismunandi tagi. Hér er litið svo á að skipulag sé "stafrænt" þegar seinni hátturinn er hafður á, sbr. skilgreiningu í upphafi.

Söfnun og viðhald skipulagsupplýsinga í skipulagsgagnagrunni (F)

Mikilvægt er að það sé skýrt hver ber ábyrgð á því að leggja skipulagsupplýsingar inn í skipulagsgagnagrunn og viðhalda þeim þar. Tryggja þarf að ávallt sé þar að finna hið eina rétta, staðfesta og gildandi skipulag, svo ekki sé hætta á því að notendur upplýsinganna, t.d. íbúar, fái rangar upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Þeir sem bera ábyrgð á því að leggja inn gögn þurfa að hafa ítarlega skilgreiningu á því gagnasniði sem nota á þegar gögnin eru send í gagnagrunninn, t.d. sérhæfðu skilgreiningarmáli fyrir landupplýsingar, GML (Geography Markup Language). Hugsanlega þarf sérsniðinn hugbúnað til að útbúa gögnin á þessu formi.

Miðlun skipulagsupplýsinga úr skipulagsgagnagrunni (G)

Segja má að miðlun skipulagsupplýsinga sé helsta markmið kerfisins alls, þ.e. að yfirvöld og almennir borgarar geti áttað sig á því hvaða skipulag gildir og hvaða markmið sett hafa verið um þróun á hverju svæði. Netið er að sjálfsögðu aðalfarvegur slíkrar miðlunar og hún getur verið einkum með fernum hætti:

    • Myndmiðlun (WMS, sjá ofar)

    • Fitjumiðlun (WFS, sjá ofar)

    • Textaskjöl og uppdrættir (PDF)

    • Vísanir á vefi

Líkt og við á um miðlun landupplýsinga yfirleitt, má gera ráð fyrir því að uppfletting sé öllum opin og ókeypis, t.d. kort í WMS þjónustu og PDF skjöl en hugsanlega sé tekið gjald fyrir gögn sem henta fyrir áframhaldandi vinnslu (WFS).

Eldri skipulög og aðgengi að þeim (H)

Eldri skipulagsáætlanir eru yfirleitt af tvennu tagi:

    • Skannaðir uppdrættir og greinargerðir

    • PDF skjöl með uppdráttum og greinargerðum

Það kostar eðlilega nokkurt átak að koma eldri gögnum inn í gagnagrunn til þess að veita uppflettiaðgang að þeim. Uppdrættir á PDF formi eru í mörgum tilfellum útbúnir í teiknikerfum (CAD) og til þess að koma upplýsingum um landnotkunarreiti úr slíkum kerfum inn í skipulagsgagnagrunn þarf að gera eftirfarandi:

    • Tryggja samræmi við grannfræðireglur (t.d. hvorki skörun né gap milli reita).

    • Tryggja að reitir séu afmarkaðir sem marghyrningsfitjur en ekki línur.

    • Skrá skilmála og annað slíkt sem eigindi og búa um þau ásamt hnitum fitjunnar á það gagnaform sem gagnagrunnurinn veitir viðtöku, t.d. GML.