Noregur

Högun og flæði upplýsinga - Noregur

Almennur landupplýsingagrunnur (A)Felles KartdataBase (FKB) er almennur landupplýsingagrunnur til nota við lögbundin verkefni stjórnsýslunnar og áætlanagerð. Meðal gagna í grunninum er landhæðarlíkan, vatnafar, jarðvegur, mannvirki, heimilisföng, lagnir, landnotkun, náttúrufar, vegir, járnbrautir og flugvellir, auk fasteigna. Nákvæmni gagnanna er +/- 0,2m til 2m eftir tegund gagna og uppruna og þau eru talin henta til kortavinnu í mælikvarða 1:500 til 1:30.000. Gögnin eru ítarlegust þar sem búseta er þéttust. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélög viðhaldi upplýsingum jafnóðum í stjórnsýslu sinni, t.d. um mannvirki og fasteignir. Loftmyndir eru endurnýjaðar á 3-10 ára fresti.

Gögn í FKB eru í samræmi við SOSI staðalinn (Samordnet opplegg for stedfestet informasjon) sem er yfirgripsmikill gagnastaðall fyrir landupplýsingar. Staðallinn hefur verið í þróun frá 1987 og inniheldur ítarlegar skilgreiningar á gagnaeiningum og eigindum þeirra. Hann nær yfir 48 viðfangsefni og skilgreinir um 1.000 mismunandi gerðir gagna sem hafa um 3.500 eigindi og 16.300 mismunandi eigindakóða.

Nú er hafin vinna við að breyta gagnaskilgreiningum SOSI staðalsins yfir á alþjóðlega staðlað GML form.

Söfnun og viðhald grunnupplýsinga (B)

Söfnun og viðhald upplýsinga inn í almennan landupplýsingagrunn er á höndum Geovekst, sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaga, vegagerðarinnar, orku- og fjarskiptafyrirtækja, landbúnaðarins og Statens Kartverk. Markmið samstarfsins er að sjá til þess að landupplýsingagrunnur sé fyrir hendi þar sem einn aðili safnar og viðheldur upplýsingum af hverju tagi en margir aðilar geta nýtt upplýsingarnar. Samningur aðilanna um samstarfið var undirritaður 1992. Í samningnum er m.a. kveðið á um kostnaðarskiptingu með hliðsjón af hagræði og notagildi fyrir aðilana. Árið 2008 höfðu 160 milljónir norskra króna verið lagðar í samstarfið, þar af 110 milljónir í kaup á þjónustu kortagerðarfyrirtækja á einkamarkaði.

Miðlun grunngagna fyrir skipulagsgerð (C)

Undir Norge digitalt er rekinn lýsigagnavefur (www.geonorge.no) sem jafnframt veitir aðgang að kortaþjónustu og niðurhali eftir því sem við á. Aðilar sem hafa landupplýsingar geta komið þeim, ásamt lýsigögnum, á framfæri á þessum vef. Sveitarfélögin hafa sjálfkrafa aðgang að FKB gögnum þar sem þau eru aðilar að gerð þeirra og viðhaldi. Til er sérstakur lýsigagnavefur fyrir FKB.

Mótun stafræns skipulags (D)

Í Noregi eru skilgreind eftirfarandi skipulagsstig:

Landssskipulag er skilgreint sem "Stefna á landsvísu um svæðis- og aðalskipulag" (Nasjonale forventninger til regional og kommunal planlegging, grein 6-1). Stefnan skal útfærð í svæðis- eða aðalskipulagi í samráði við þau sveitarfélög sem málið varðar. Stefnan er sett fram sem "Skipulagsstefna ríkisins" (Statlige planretningslinjer).

Svæðisskipulag (regional plan) er mótað þegar fleiri en eitt sveitarfélag telja þörf á að móta sameiginlega stefnu í tilteknum málaflokkum. Skipulagsyfirvald á svæðisskipulagsstigi er fylkisstjórn. Svæðisskipulagi á að fylgja aðgerðaáætlun sem er endurskoðuð árlega.

Í lögunum er gert ráð fyrir mögulegu samstarfi sveitarfélaga eða fylkja í skipulagsmálum (interkommunalt samarbeid) þegar sveitarfélögin telja ástæðu til. Þetta getur átt við á öllum skipulagsstigum sem eru á forræði sveitarstjórna. Lögin segja til um hvernig samstarfinu skuli háttað í meginatriðum. Sveitarfélög geta geta óskað eftir því að fylkisstjórnin taki við verkinu og geri svæðisskipulag á grundvelli samstarfsins.

Aðalskipulag (kommuneplan) er á höndum sveitarfélaga. Þar skal fjallað um samfélag í víðum skilningi og landnotkun (gr. 11-1). Skilgreina má aðalskipulagshluta (kommunedelplan) þar sem fjallað er um tiltekin svæði, málefni eða atvinnustarfsemi, eftir því sem þörf er fyrir. Ákvæði aðalskipulags um landnotkun eru útfærð í deiliskipulagi en ákvæði um samfélag eru útfærð í aðgerðaáætlun (handlingsprogram) sem gerð skal til fjögurra ára en uppfærð árlega. Samfélagshlutinn inniheldur stefnu í öllum helstu málaflokkum sem eru á forræði sveitarfélagsins, þar með talið þær megináherslur sem gilda um landnotkun. Í landnotkunarhluta er lögð áhersla á að skýr greinarmunur sé gerður á stefnu um landnotkun annars vegar og varúðarsvæðum (hensynssoner) hins vegar. Varúðarsvæði eru þar sem taka þarf sérstakt tillit til atriða eins og náttúrvár, menningarminja, líffræðilegs fjölbreytileika o.s.frv. Kynna skal skipulagslýsingu áður en hafist er handa við mótun aðalskipulags. Ríki, fylkisstjórn og nágrannasveitarfélög geta andmælt ákvæðum aðalskipulags og skal þá umhverfisráðuneytið miðla málum ef ekki næst samkomulag milli aðila.

Deiliskipulag (reguleringsplan) skal liggja fyrir þegar veitt er leyfi fyrir öllum stærri mannvirkjum en sveitarstjórn getur tiltekið í landnotkunarhluta aðalskipulags að gera skuli deiliskipulag í öðrum tilfellum. Þess er ekki krafist að gert sé deiliskipulag fyrir leyfisskyld orkumannvirki. Gert er ráð fyrir deiliskipulagi af tvennu tagi, þar sem annars vegar er fjallað um stærri reiti (områderegulering) og hins vegar smærri reiti (detaljregulering). Einkaaðilum er heimilt að leggja fram deiliskipulag.

Skipulagsáætlanir á að vinna og setja fram í samræmi við reglur sem umhverfisráðuneytið gefur út (Nasjonal produktspesifikasjon for arealplan og digitalt planregister) og gilda þær, að fjórða hluta undanskildum, fyrir allar skipulagsáætlanir, hvort sem þær eru felldar að hinu nýja stafræna sniði eða ekki.

Hluti 0 gefur almennt yfirlit.

Hluti 1 inniheldur ítarlegar almennar reglur um mótun landnotkunarhluta skipulagsins, þar á meðal grannfræðireglur fyrir fitjur.

Hluti 2 inniheldur teiknireglur, þ.e. hvernig línur, liti og tákn skuli nota á skipulagsuppdráttum.

Hluti 3 inniheldur gagnaskilgreiningar fyrir stafrænar skipulagsáætlanir, þ.e. SOSI skilgreiningarnar, fyrir aðalskipulag, fyrir deiliskipulag og fyrir deiliskipulagstillögur.

Hluti 4 lýsir stafrænni skipulagsskrá (digitalt planregister) í lágmárksútfærslu, með sýnidæmi.

Skipulagsgagnagrunnur (E)

Vegna gildistöku nýrra skipulags- og byggingarlaga í Noregi í júlí 2009 var Statens Kartverk falið að aðlaga SOSI gagnastaðalinn að kröfum skipulagsgagnaskrár sveitarfélaga (planregister). Högun skipulagsupplýsinganna innan staðalsins er ítarlega lýst í "SOSI standard - generell objektkatalog versjon 4.2, Fagområde: Plandata". Markmið staðalsins er að auðvelda flæði upplýsinga um skipulag, t.d. milli ólíkra tölvukerfa og stjórnsýslueininga og milli stjórnsýslu og fyrirtækja. Þess er gætt að greinarmunur sé gerður á upplýsingum um staðhætti annars vegar og lagalega bindandi ákvarðana, t.d. um landnotkun, hins vegar og þessi hluti staðalsins fæst við hið síðarnefnda. Í staðlinum er gert ráð fyrir öllum skipulagsstigum. Landsskipulag og svæðisskipulag er einkum sett fram í orðum og staðallinn snýst því að mestu um landnotkun og stefnu og skilmála sem henni tengjast í aðal- og deiliskipulagi. Einnig er gert ráð fyrir skýringaruppdráttum. Í staðlinum er gert ráð fyrir því að hverri skipulagsáætlun sé úthutað einhlítt skipulagsnúmer á landsvísu.

Staðallinn gerir ráð fyrir eftirfarandi meginflokkum skipulagsgagna:

    • Landsskipulag (Nasjonale planoppgaver / Rikspolitiske bestemmelser og retningslinjer). Staðallinn gerir ráð fyrir skráningu staðbundinna ákvarðana ríkisins á landsskipulagsstigi og slíkar ákvarðanir flokkaðar í 9 flokka. Skráð er afmörkun svæðisins, sveitarfélagsnúmer, dagsetning gildistöku ofl.

    • Svæðisskipulag (Regional plan / Fylkes- og fylkesdelplaner). Skráð er m.a. afmörkun, fylkisnúmer, lagatilvísun og dagsetningar. Undir þennan flokk heyra síðan nánari gögn, m.a. landnotkunarsvæði, samgöngur og svæði með takmörkunum. Skilgreindir eru 64 landnotkunarflokkar (arealbruk) auk 20 flokka takmarkana á landnotkun (arealbrukrestriksjoner) og 24 flokka leiðbeinandi ákvæða um landnotkun (arealbruksretningslinjer).

    • Aðalskipulag (Kommune(del)plan). Skráð er m.a. afmörkun, sveitarfélagsnúmer, lagatilvísun og dagsetningar. Undir þennan flokk heyra síðan nánari gögn um landnotkunarstefnu (arealformålsone) og síðan 8 flokkar varúðarsvæða: öryggissvæði (sikringsone), hávaðasvæði (støysone), hættusvæði (faresone), grunnkerfi (innfrastruktursone/linje), gátsvæði (angitt hensyn sone), svæði þar sem deilskipulag gildir áfram (detaljeringsone), sæði sem krefjast samstarfs í skipulagi, breytingar eða endurnýjunar (gjennomføringsone) og lögbindingarsvæði (båndleggingsone). Markmiðum um landnotkun er skipt í 59 flokka varúðarsvæði eru flokkuð í 2-20 flokka eftir því sem við á.

    • Deiliskipulag (Reguleringsplan og bebyggelsesplan). Skráning er að mestu með saman hætti og fyrir aðalskipulag, hvað varðar landnotkun og varðúðarsvæði.

    • Tímabundnar takmarkanir (Midlertidig forbud mot tiltak). Skráð er afmörkun, málsnúmer og dagsetning ákvörðunar.

    • Eignarnám (Ekspropriasjon). Skráð er afmörkun, málsnúmer og dagsetning ákvörðunar.

    • Bætur (Refusjon). Skráð er afmörkun, málsnúmer og dagsetning ákvörðunar.

    • Einstök mál (Enkeltsaker). Skráð er staðsetning, umfang, efnisflokkur og tilgreind sú eign eða lóð sem á í hlut, málsnúmer o.fl.

    • Skýringar (Ikke juridisk informasjon og illustrasjoner). Skráð er afmörkun, nafn og númer skipulags, tegund skýringar og vísun í SOSI gögn sem tengjast málefninu.

Þar sem SOSI staðallinn gerir ráð fyrir öllum skipulagsstigum og ítarlegri skráningu um hvert þeirra er hann töluvert umfangsmeiri og flóknari en danski staðallinn.

Söfnun og viðhald skipulagsupplýsinga í skipulagsgagnagrunni (F)

Sveitarfélögum, sem kjósa að vinna stafrænt skipulag, er skylt að leggja upplýsingar í samræmi við SOSI staðalinn inn í gagnagrunn Statens kartverk, sbr. 12. grein reglugerðar.

Miðlun skipulagsupplýsinga úr skipulagsgagnagrunni (G)

Þar sem skipulagsupplýsingar fara inn í gagnagrunn Statens kartverk lýtur miðlun þeirra sömu lögmálum og önnur miðlun landupplýsinga frá stofnuninni.

Eldri skipulög og aðgengi að þeim (H)

Skv. 12. grein reglugerðar ná ákvæði um stafrænt skipulag til þeirra skipulagsáætlana sem gerðar eru eftir að reglugerðin tekur gildi og þeirra eldri áætlana sem gerðar eru í samræmi við SOSI staðalinn, útgáfu 4.0.

Yfirlitsmynd: