Ísland
Högun og flæði upplýsinga - Ísland
Almennur landupplýsingagrunnur (A)
Landmælingar Íslands viðhalda IS 50V gagnagrunninum. Viðmiðunarskali gagnanna er 1:50.000 enda segir í lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, að Landmælingar Íslands skuli annast gerð, viðhald og miðlun á eftirtöldum stafrænum þekjum í mælikvarðanum 1:50.000 og miðlun þeirra í minni mælikvarða:
a. Vatnafar.
b. Yfirborð.
c. Vegir og samgöngur.
d. Örnefni, í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
e. Stjórnsýslumörk.
f. Mannvirki.
g. Hæðarlínur og hæðarpunktar.
Auk IS 50V fást hjá Landmælingum Íslands (LMÍ) gögn um flokkun landgerða (CORINE), gögn um skóga og skurði (IS X) og landhæðarlíkan, sem unnið er út frá hæðarlínum í IS 50V. Engar loftmyndatökur fara fram lengur hjá LMÍ en stofnunin nýtir sér eigin loftmyndir og frá öðrum aðilum auk gervitunglamynda til þess að vinna vektorgögn og viðhalda þeim.
Hjá Þjóðskrá Íslands er færð landsskrá fasteigna, þar sem markmiðið er að til verði landupplýsingagrunnur með landeignaskrá, mannvirkjaskrá og staðfangaskrá.
Hjá einkaaðilum er hægt að fá nýlegar loftmyndir og nákvæm vektorgögn sem unnin eru út frá þeim, t.d. um vegi, mannvirki og vatnafar. Einnig er algengt að sveitarfélög feli einkafyrirtækjum að annast viðhald, umsýslu og miðlun landupplýsinga en algengast er að það eigi við um gögn sem lúta að tæknilegum grunnkerfum.
Margar ríkisstofnanir eiga landupplýsingar á sínu fagsviði.
Þótt gögn í mælikvarðanum 1:50.000 séu upplýsandi og veiti nægilegan grunn fyrir skipulag mjög stórra svæða er ekki hægt að nota þau sem grunn fyrir skipulag smærri svæða, enda segir í gildandi skipulagsreglugerð að sveitarfélagsuppdrátt skuli almennt gera í mælikvarða 1:100.000 til 1:25.000 en þéttbýlisuppdrætti í mælikvarða 1:10.000. Deiliskipulag gerir að sjálfsögðu enn meiri kröfur. Það er því ljóst að opinberir aðilar hafa ekki á sínum snærum öll þau grunngögn sem þörf er fyrir við gerð skipulags og sem eru í nágrannalöndunum taldar ein helstu grunngögn stjórnsýslunnar, til að tryggja faglega og skilvirka málsmeðferð, líkt og þjóðskrá.
Til þess að samræma landupplýsingar hefur verið mótaður íslenskur staðall, ÍST 120:2007 Skráning og flokkun landupplýsinga - Fitjuskrá. Þar er tekið á þeim fitjuflokkum sem varða almennan landupplýsingagrunn og gert ráð fyrir fitjum sem sýna afmörkun og landnotkunarstefnu reita í skipulagi á mismunandi stigum. Fyrir stafrænt skipulag þarf þó ítarlegri skráningu enda eru gagnastaðlar í Danmörku (PlanDK2) og í Noregi (SOSI) miklu umfangsmeiri, einkum sá norski.
Söfnun og viðhald grunnupplýsinga (B)
Almenna reglan er sú að hver aðili viðheldur sínum gögnum á eigin forsendum. Ekki er um neitt verulegt samstarf um söfnun að ræða annað en sameiginleg innkaup stofnana, t.d. á gervitunglamyndum og verkefnabundið samstarf þar sem landupplýsingar koma við sögu.
Miðlun grunngagna fyrir skipulagsgerð (C)
Við mótun skipulags þarf sveitarfélagið og/eða ráðgjafi þess að afla landupplýsinga úr ólíkum áttum. Almennt kemur ekki til greina að nota sem grunn IS 50V frá LMÍ heldur verður að styðjast við samsvarandi upplýsingar ásamt loftmyndum frá einkaaðilum. Gögnin eru þá í flestum tilfellum afhent á geisladiski á því formi sem hentar viðtakandanum. Við skipulagsgerðina þarf að hafa samband við ólíkar stofnanir vegna sértækta gagna, t.d. um háspennulínur, ljósleiðara, fornminjar, náttúruverndarsvæði ofl.
Mótun stafræns skipulags (D)
Engar reglur eða leiðbeiningar eru til um það hvernig skipulag er unnið m.t.t. stafrænna gagna. Flestir skipulagsuppdrættir eru unnir í teiknikerfum (CAD) en notkun landupplýsingakerfa (GIS) heyrir til undantekninga.
Skipulagsgagnagrunnur (E)
Enginn sameiginlegur gagnagrunnur er um innihald skipulagsáætlana, aðeins þær skrár yfir skipulagsáætlanir sem Skipulagsstofnun heldur á landsvísu og sveitarfélögin halda hvert fyrir sig.
Söfnun og viðhald skipulagsupplýsinga í skipulagsgagnagrunni (F)
Skipulagsstofnun heldur skrá yfir gildandi skipulagsáætlanir á landsvísu en skráir ekkert niðurbrot á efni þeirra.
Miðlun skipulagsupplýsinga úr skipulagsgagnagrunni (G)
Með lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 var sveitarfélögum gert skylt að kynna umhverfisskýrslu ásamt tilheyrandi skipulagstillögu á netinu. Með nýjum skipulagslögum, nr. 123/2010, er jafnframt gert skylt að hafa allar auglýstar skipulagstillögur aðgengilegar á netinu. Skiplagsstofnun rekur skipulagsvefsjá þar sem hægt er að slá upp skipulagsáætlunum á PDF formi og sjá má mörk hvers deiliskipulags á korti. Sum stærri sveitarfélög bjóða á svipaðan hátt upp á uppflettingu á skipulagsgögnum í vefsjám sem þau reka, t.d. skipulagssjá Reykjavíkurborgar.
Eldri skipulög og aðgengi að þeim (H)
Skipulagsstofnun heldur til haga gögnum um allar skipulagsáætlanir sem hafa verið sendar stofnuninni en ekki er um að ræða rafrænan aðgang að þeim sem úr gildi eru fallnar. Unnið er að því að gera allt deiliskipulag sem er í gildi aðgengilegt í skipulagsvefsjánni.
Yfirlitsmynd: