Lagastoð og stjórnsýsla - Danmörk


Í Danmörku eru 98 sveitarfélög (kommuner) sem tilheyra 5 landshlutum (regioner). Veruleg uppstokkun var gerð á sveitarstjórnarstiginu árið 2007 þegar sýslur (amter) voru lagðar niður og sveitarfélögum fækkað um leið úr 270 í 98. Í stað 13 sýslna voru skilgreindir 5 landshlutar. Um leið voru verkefni færð frá ríki til sveitarfélaga og 50 lagafrumvörp samin vegna breytinganna. Eftir breytinguna eru aðeins 8 sveitarfélög með innan við 20.000 íbúa og miðgildi íbúafjöldans er um 43.000. Yfir landshlutum er sérstök stjórn kjörinna fulltrúa. Hlutverk landshlutanna er á sviði heilsugæslu, landshlutaþróunar, umsjónar með nýtingu hráefnisauðlinda og reksturs stofnana.

Skipulagslög

Dönsku skipulagslögin eru afgerandi og ítarleg hvað varðar kröfu um að skipulagsáætlanir séu á stafrænu formi. Þar er kveðið á um skyldur sveitarfélaga til að annast aðal- og deiliskipulagsgerð og skyldu ríkisins til að móta landsskipulag, með áþekkum hætti og gert er ráð fyrir í nýju íslensku skipulagslögunum nr. 123/2010. Kröfur um stafrænt skipulag koma fram í greinum 54a og 54b. Meginefni þessara greina er eftirfarandi:
 • Umhverfisráðherra getur gefið út reglur varðandi mögulega hagnýtingu stafrænna samskipta á gildissviði laganna og nánari skilyrði þar um.
 • Að umhverfisráðherra skuli halda skrá yfir skipulagsáætlanir en um rekstur hennar skuli samið við sveitarfélögin.
 • Að umhverfisráðherra skuli gefa út reglur um stafræna innlögn upplýsinga um deiliskipulagsáætlanir og aðalskipulagsramma ásamt tillögum að slíkum áætlunum. Honum er ennfremur heimilt að setja reglur um stafræna innlögn annarra þátta aðalskipulags.
 • Að skrá yfir skipulagsáætlanir skuli vera öllum opin, án endurgjalds.
 • Að umhverfisráðherra skuli setja reglur, þ.á .m. tæknilegar kröfur, um það hvernig stafræn innlögn skipulagsupplýsinga fari fram.
 • Að umhverfisráðherra skuli setja reglur um innlögn eldri skipulagsáætlana af ýmsu tagi (staðfestar fyrir 15. september 2006) og frest til að ljúka henni.
 • Að umhverfisráðherra skuli setja reglur um samsvörun milli skrár yfir skipulagsáætlanir og landeignaskrár.
Í grein 31a er umhverfisráðherra veitt heimild til setja reglur sem kveða á um það að sveitarfélög geti uppfyllt skyldur sínar til að kynna tillögur varðandi nýjar eða breyttar skipulagsáætlanir með því að leggja gögn þar um inn í þá skrá yfir skipulagsáætlanir sem mælt er fyrir í grein 54b. Þá skulu fylgja með upplýsingar um þau yfirvöld (þ.e. umsagnaraðila) sem eiga að fá tilkynningu.
Aðalskipulag öðlast gildi um leið og sveitarstjórn samþykkir það endanlega eftir afgreiðslu athugasemda. Engrar sérstakrar staðfestingar stofnana eða ráðuneytis er krafist enda ber sveitarfélagið alla ábyrgð á skipulaginu.

Í Danmörku er ekki um að ræða sérstaka skipulagsreglugerð til nánari útfærslu á lögunum. Annars vegar virðist mega skýra það með því að lögin sjálf eru allítarleg og á hinn bóginn er svigrúm sveitarfélaganna til að ákveða nálgun við skipulagsgerð töluvert og þá ábyrgð þeirra á faglegri og vandaðri nálgun mikil eftir því.


Til þess að fylgja eftir lagaákvæðum um stafrænt skipulag hefur umhverfisráðherra gefið út auglýsingu (Cirkulære nr. 68) um stafræna skrá (gagnagrunn) yfir skipulagsupplýsingar og það hvernig sveitarstjórnum beri að leggja upplýsingar um skipulagstillögur þar inn. Þar er gerð nánari grein fyrir fyrirkomulagi og frestum sem veittir eru til innsendingar á gögnum.

Önnur lagasetning

Lög um grunngerð landupplýsinga (GI-loven) voru samþykkt í desember 2008 (L1331/2008) og byggjast m.a. á INSPIRE tilskipuninni.
Í september 2009 var tekin í notkun stafræn þinglýsing. Fram að þeim tíma var skylt að þinglýsa deiliskipulagsáætlunum en eftir breytinguna kemur innsending skipulagsgagna inn í skipulagsgagnagrunn (PlansystemDK) í staðinn fyrir þinglýsinguna.

Stjórnsýsla

Danska umhverfisráðuneytið fer með skipulagsmál en það er Naturstyrelsen sem annast daglega umsýslu, hliðstætt Skipulagsstofnun hér á landi.  Sú stofnun annast rekstur gagnagrunns fyrir skipulagsgögn (PlansystemDK). Umsjón með landupplýsingum og landeignaskrá er á hendi Kort- og Matrikelstyrelsen (KMS), sem semur við sveitarfélögin um samstarf í landupplýsingamálum. KMS birti í janúar 2011 uppfærða stefnu um staðgreiningu sem lykil að stafrænni stjórnsýslu (Stedet som indgang til digital forvaltning).  Á grunni hagstjórnarsamnings sambands sveitarfélaga  (KL, Kommunernes Landsforening) og ríkisstjórnarinnar hefur verið gerður sameiginlegur samningur KMS við sveitarfélögin (Kommunal kortaftale med Kort- og Matrikelstyrelsen) um aðgang að landupplýsingum. KMS rekur einnig sérstakan vef með lýsigögn landupplýsinga.

Gagnahögunin sem skilgreind er í PlanDK2 og útfærð er í PlansystemDK gagnagrunninum er í samræmi við staðla rafrænnar stjórnsýslu í Danmörku (OIOXML) sem Upplýsinga- og fjarskiptastofnunin (IT- og Telestyrelsen, ITST) hefur umsjón með.

Samræming innan stjórnsýslunnar

Á vegum umhverfisráðuneytisins starfar samstarfsvettvangur um landupplýsingar, (Servicefællesskabet for Geodata, SFG), þar sem sæti eiga fulltrúar ráðuneyta, stofnana og landssamtaka sveitarfélaga (KL). Samstarfsvettvangurinn hefur starfslið sem kostað er af umhverfisráðuneytinu. Hlutverk samstarfsvettvangsins er m.a. að:
 • Móta sýn og áætlun um þróun landupplýsinga í Danmörku.
 • Að tryggja samstarf og samræmingu þvert á fagsvið og stjórnsýslustig.
 • Að örva þróun í landupplýsingaþjónustu.
 • Að ákveða meginreglur um gjaldtöku og kostnaðarskiptingu.
Samkvæmt þeirri sýn sem mótuð hefur verið eiga landupplýsingar að vera einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum eðlilegt hjálpartæki og þær eiga að vera samstæðar, staðlaðar, aðgengilegar og ódýrar. Þær eiga að mynda grunn þar sem flétta má saman gögn af ólíkum toga. Sýnin tiltekur mörg fleiri atriði sem varða ábyrgð, gjaldtöku, gagnahögun ofl.