Ágrip


Í þessari samantekt er gefin yfirsýn yfir það hvernig stafrænu skipulagi er fyrir komið í Danmörku og Noregi ásamt samanburði við Ísland. Með stafrænu skipulagi er átt við skipulag sem unnið er í landupplýsingakerfi, þannig að öll ákvæði sem fela í sér staðbundin réttaráhrif eru sett fram sem fitjur með margvíslegar eigindir, þar sem réttaráhrifin koma fram.

Samantektin tengir þróun stafræns skipulags við ýmsar forsendur sem máli skipta, svo sem um almennan landupplýsingagrunn fyrir stjórnsýsluna, stærð og fjölda sveitarfélaga, samstarf stofnana og fagaðila og lagaákvæði. Lýst er í grófum dráttum gagnahögun, innlögn og miðlun gagna. Að lokum eru settar fram tillögur um aðgerðir á nokkrum sviðum.

Bent er á mikilvægan forsendubrest sem felst í því að stjórnsýslan hefur ekki á sínum snærum almennan landupplýsingagrunn sem nýtist á öllum stigum skipulags, en í nágrannalöndunum er lögð áhersla á að slíkur grunnur verði til í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Í nágrannalöndunum hafa gagnastaðlar verið í mótun í allmörg ár í umfangsmiklu samstarfi opinberra aðila og einkaaðila. Með íslenskum staðli um skráningu og flokkun landupplýsinga, ÍST 120, er stigið skref í átt að gagnastöðlun hér á landi en þó ekki nægilegt hvað varðar stafrænt skipulag.

Margt má læra af nágrönnum í Danmörku og Noregi. Þótt Danir hafi fækkað sveitarfélögum og tryggt þeim þannig aukinn faglegan styrk í skipulagsmálum er gagnastaðall þeirra einfaldari en sá norski.  Mikilvægt er að tryggja að skipulagslög og reglugerð færi stjórnsýslunni þá lagastoð sem þarf til að hægt sé að yfirfæra þekkingu nágrannanna til Íslands. 

Samantekt þessi birtist eingöngu sem vefur og hefur sú leið verið farin að fella vísanir í heimildir inn í textann í stað hefðbundinnar heimildaskrár, en þannig er auðvelt að kynna sér ítarefni, enda er það allt á vefnum í samræmi við upplýsingamiðlun nútímans.